Skíðadagur 10. mars

Hæ hæ,
um helgina fór Jón Gauti í gönguskíðaferð með tveimur félögum Netklúbbs ÍFLM. Þau fóru og gengu um á Heiðinni Háu og var gott færi og nægur snjór til skíðaferðalaga. Veður var gott en það var byrjað snemma til að sleppa við slæma veðurspá sem áætluð var seinnipart dagsins.

Jón Gauti tók þessa mynd hér að ofan. Allir ánægðir og brosandi!!!


Einnig fór undirritaður á fjallaskíði sama dag (sá meira að segja fyrrnefnt fólk) með Erin Fiddick. Við fórum að Eldborgarsvæðinu og skíðuðum í átt að Draumagili til að skoða aðstæður. Á leiðinni rákumst við á Leif Örn, sem var að kenna snjóflóðanámskeið.

Eftir að hafa farið upp hjá Draumagili fórum við hring og komum niður aftur á Eldborgarsvæðinu. Friðjón Þ.

Klifur í Hvalfirði og á Skessuhorninu


Undirritaður fór með einn viðskiptavin í tveggja daga klifur. Mánudagurinn 26. feb var tekinn í Hvalfirði þar sem við klifruðum 3 ísleiðir af gráðunum WI3-4. Gott veður þægilegt hitastig til ísklifurs, ca. -5°C.
Á miðvikudeginum 28. feb fórum við á NA-hrygg Skessuhornsins þar sem aðstæður voru með besta móti til snjóklifurs, hart og gott færi sem þýddi hröð yfirferð. Viðskiptavinurinn, Jeff, sagði orðrétt; ...best fun I have ever had with my clothes on!!! Frábært veður og í alla staði góður dagur á fjöllum!
Friðjón Þ.

Fréttir

Eitthvað varð lítið úr umfjöllun um ferð Leifs á Aconcagua en hann er kominn heim eftir að hafa náð tindi hæðsta fjalls S-Ameríku, Aconcagua. Vonandi fáum við einhverja ferðasögu frá kappanum við tækifæri ásamt myndum!Annars var ég, undiritaður, að koma heim líka í vikunni eftir að hafa vaðið snjó í Kanada og má með sanni segja að það sé aðeins meiri snjór þar heldur en á Íslandi. Meðaltalið var yfir 3m þar sem ég fór um...nokkuð gott.Áður en byrjað var að skíða þá skellti ég mér í létt ísklifur með Dodda (Þórði) sem vinnur töluvert fyrir ÍFLM
Friðjón

Lítið að frétta

Heyrst hefur aðeins í Leifi Erni frá hlíðum Aconcagua en samband slitnaði fljótlega...þó náðist að fá að vita að allt gengur eftir áætlun. Innan skamms verður meira að frétta af Leif á heimasíðu Útiver, www.utivera.is

Ég skrifa þessa klausu frá Canmore í Kanada og stefnan tekin í dag að Golden sem liggur á milli Klettafjallanna og Purcelfjallgarðsins. Á dagskránni er 7 daga próf í snjóflóðafræðum og ef eitthvað skemmtilegt verður í gangi þá koma fréttir og einhverjar myndir í kaupæti.

Veturinn í Kanada hefur verið hreint ótrúlegur hingað til og eru snjóaðstæður þveröfugt við Evrópu...búið að vera fullt af snjó hérna frá upphafi vetrar og varla verið meiri snjór í áratugi.

skíðakveðja,
Friðjón

Einar ekki lengur í Ekvador - Leifur stefnir á Aconcagua

Þá eru Einar Torfi og Dagný komin til landsins eftir flotta ferð til Ekvador. Þau gengu á nokkur eldfjöll þ.á.m. Coto Paxi, sem þykkir nokkuð gott afrek en einnig átti að standa á tindi Chimborazo en snjóflóðaaðstæður komu í veg fyrir það! Frábært framtak hjá þeim!!!Þegar ein ferð endar þá tekur annað spennandi við. Leifur Örn Svavarsson stígur uppí flugvél í dag og er stefnan hjá honum, eins og Einari, Suður Ameríka. Takmarkið er samt sem áður annað og stefnir Leifur á hæðsta fjall heimsálfunnar, Aconcagua!

Aconcagua er 6.962 metra hátt og er hæðsta fjall í heiminum utan Asíu. Fjallið er ekki tæknilega erfitt en hæðin er það mikil að ekki kemst hver sem er á toppinn.

Nóg í bili og við bíðum spennt eftir fréttum af Leifi Erni þegar hann byrjar að takast á við fjallið!25. jan. Einar í Ekvador - Chimborazo hefur betur.


Vöknuðum reyndar kl ellefu, klukkutíma fyrir miðnætti, svolítið skrýtinn tími til að segja góðan daginn við samferðafólkið. Fengum okkur te og brauðsneið og vorum komin af stað 6 mínútur yfir miðnætti. Veðrið var hálf ógeðslegt og var búið að valda mér léttum áhyggum fyrr um kvöldið, þoka og rigning. En eftir innan við klukkutíma göngu gengum við upp úr skýjunum og sáum stjörnubjartan himinn í fallegu veðri. Við spentum á okkur broddana í um 5.300m hæð og klöngruðumst upp skriður og kletta sem voru á köflum óþægilega snjólítil miðað við hæðina. Í ca 5500 m hæð þurftum við að brölta upp 55° brattan klett klæddan þunnri ísskán, aðstæður sem maður hefur svo sem oft séð heima en ekki þurft að brölta yfir svona ansi andstuttur. Okkur miðaði vel og tókum hægt og rólega framúr öllum hópunum sem voru á leiðinni upp (ca 20 manns voru að reyna við fjallið þessa nótt), og greinilegt að gamla formið var að virka. Þegar komið var í um 5.800 m hæð þarf að þvera sig yfir á hrygg yfir á gömlu normal leiðinna á fjallið en við vorum vestar á leið sem flestir telja betir núna. Þegar við vorum komin vel af stað út í hlíðina fer Fausto að pota í snjóinn með ísöxinni og ég átta mig á því að við stöndum á vindfleka í 35 til 45° bratta og smá skafrenningur bætti snjó stöðugt í brekkuna þar sem við stóðum. Sem sagt hugsanleg snjóflóðahætta. Okkur Dagnýu leist ekki meira en svo á blikuna og þegar við vorum komin út á hryggin hjá normal leiðinni voru aðstæður enn verri þar fyrir ofan. Það var ekki nema um eitt að ræða, snúa við og það gerðum við í rúmlega 5.900 m. Við gengum niður bratta hryggi á normalleiðinni, 35 til 45 gráðu brattir og svo beygðum við út í risa stóra skál með hangandi jökli og sikk sökkuðum niður hana alveg niður að skála. Það voru auðvitað vonbrigði að komast ekki upp en aðalega var maður samt dauðfeginn að komast út úr snjóflóða aðstæðunum. Aðeins einn hópur hélt áfram upp og sneri við í 6000m en enginn fór á tindinn. Svissneskur leiðsögumaður sem var að fara upp í annað sinn í mánuðinum og hefur farið á Chimbo mörgum sinnum sagði að hann hefði sjaldan lent í jafn leiðinlegum aðstæðum.
Þegar við komum aftur í Whymper skálan þá lagði ég mig í tvo tíma og svo gengum við niður að bíl og ókum norður fyrir fjallið og svo til baka til Banos.

24. jan Einar í Ekvador - Whymper skáli.
Við vorum ekkert að flýta okkur í morgun, klukkan var orðin rúmlega níu þegar við lögðum af stað. Dagurinn byrjaði á að fara í súpermarkað í bænum Ambato. Þetta var greinilega ekki “Bónus” þeirra heimamanna, mikið af dýrri innfluttri vöru og fólk af efnaminni stéttum sást ekki innandyra. Fausto keypti gott nesti fyrir okkur “gringóana” og síðan ókum við suður og vestur fyrir Chimborazo, á góðum vegi upp í 4.200m hæð og síðan malarslóða upp í skála sem er í 4.800m. Þaðan var gengið upp í Whymper skála, sem er í 5000m hæð og heitir svo eftir breska fjallamanninum Whymper sem á 19. öld gekk fyrstur manna ásamt hinum ítölsku Carrel bræðrum á tind Chimborazo.
Ritúal dagsins var svipað og fyrir Cotopaxi, við spiluðum Yatsi og lásum til kl fimm en þá borðuðum við kvöldmat og lögðum okkur síðan.