Einar ekki lengur í Ekvador - Leifur stefnir á Aconcagua

Þá eru Einar Torfi og Dagný komin til landsins eftir flotta ferð til Ekvador. Þau gengu á nokkur eldfjöll þ.á.m. Coto Paxi, sem þykkir nokkuð gott afrek en einnig átti að standa á tindi Chimborazo en snjóflóðaaðstæður komu í veg fyrir það! Frábært framtak hjá þeim!!!Þegar ein ferð endar þá tekur annað spennandi við. Leifur Örn Svavarsson stígur uppí flugvél í dag og er stefnan hjá honum, eins og Einari, Suður Ameríka. Takmarkið er samt sem áður annað og stefnir Leifur á hæðsta fjall heimsálfunnar, Aconcagua!

Aconcagua er 6.962 metra hátt og er hæðsta fjall í heiminum utan Asíu. Fjallið er ekki tæknilega erfitt en hæðin er það mikil að ekki kemst hver sem er á toppinn.

Nóg í bili og við bíðum spennt eftir fréttum af Leifi Erni þegar hann byrjar að takast á við fjallið!25. jan. Einar í Ekvador - Chimborazo hefur betur.


Vöknuðum reyndar kl ellefu, klukkutíma fyrir miðnætti, svolítið skrýtinn tími til að segja góðan daginn við samferðafólkið. Fengum okkur te og brauðsneið og vorum komin af stað 6 mínútur yfir miðnætti. Veðrið var hálf ógeðslegt og var búið að valda mér léttum áhyggum fyrr um kvöldið, þoka og rigning. En eftir innan við klukkutíma göngu gengum við upp úr skýjunum og sáum stjörnubjartan himinn í fallegu veðri. Við spentum á okkur broddana í um 5.300m hæð og klöngruðumst upp skriður og kletta sem voru á köflum óþægilega snjólítil miðað við hæðina. Í ca 5500 m hæð þurftum við að brölta upp 55° brattan klett klæddan þunnri ísskán, aðstæður sem maður hefur svo sem oft séð heima en ekki þurft að brölta yfir svona ansi andstuttur. Okkur miðaði vel og tókum hægt og rólega framúr öllum hópunum sem voru á leiðinni upp (ca 20 manns voru að reyna við fjallið þessa nótt), og greinilegt að gamla formið var að virka. Þegar komið var í um 5.800 m hæð þarf að þvera sig yfir á hrygg yfir á gömlu normal leiðinna á fjallið en við vorum vestar á leið sem flestir telja betir núna. Þegar við vorum komin vel af stað út í hlíðina fer Fausto að pota í snjóinn með ísöxinni og ég átta mig á því að við stöndum á vindfleka í 35 til 45° bratta og smá skafrenningur bætti snjó stöðugt í brekkuna þar sem við stóðum. Sem sagt hugsanleg snjóflóðahætta. Okkur Dagnýu leist ekki meira en svo á blikuna og þegar við vorum komin út á hryggin hjá normal leiðinni voru aðstæður enn verri þar fyrir ofan. Það var ekki nema um eitt að ræða, snúa við og það gerðum við í rúmlega 5.900 m. Við gengum niður bratta hryggi á normalleiðinni, 35 til 45 gráðu brattir og svo beygðum við út í risa stóra skál með hangandi jökli og sikk sökkuðum niður hana alveg niður að skála. Það voru auðvitað vonbrigði að komast ekki upp en aðalega var maður samt dauðfeginn að komast út úr snjóflóða aðstæðunum. Aðeins einn hópur hélt áfram upp og sneri við í 6000m en enginn fór á tindinn. Svissneskur leiðsögumaður sem var að fara upp í annað sinn í mánuðinum og hefur farið á Chimbo mörgum sinnum sagði að hann hefði sjaldan lent í jafn leiðinlegum aðstæðum.
Þegar við komum aftur í Whymper skálan þá lagði ég mig í tvo tíma og svo gengum við niður að bíl og ókum norður fyrir fjallið og svo til baka til Banos.

24. jan Einar í Ekvador - Whymper skáli.
Við vorum ekkert að flýta okkur í morgun, klukkan var orðin rúmlega níu þegar við lögðum af stað. Dagurinn byrjaði á að fara í súpermarkað í bænum Ambato. Þetta var greinilega ekki “Bónus” þeirra heimamanna, mikið af dýrri innfluttri vöru og fólk af efnaminni stéttum sást ekki innandyra. Fausto keypti gott nesti fyrir okkur “gringóana” og síðan ókum við suður og vestur fyrir Chimborazo, á góðum vegi upp í 4.200m hæð og síðan malarslóða upp í skála sem er í 4.800m. Þaðan var gengið upp í Whymper skála, sem er í 5000m hæð og heitir svo eftir breska fjallamanninum Whymper sem á 19. öld gekk fyrstur manna ásamt hinum ítölsku Carrel bræðrum á tind Chimborazo.
Ritúal dagsins var svipað og fyrir Cotopaxi, við spiluðum Yatsi og lásum til kl fimm en þá borðuðum við kvöldmat og lögðum okkur síðan.

23. Jan - Banos 1.800mVaknaði um hálf átta eftir næstum tíu tíma svefn. Við byrjuðum daginn á skoðunarferð en þannig liggur landið hér í Banos að bærinn er í þröngum dal sem hallar niður að Amazon. Þetta er eginlega næstum því gil frekar en dalur svo þröngt er hér á milli fjalla, og í botninum rennur stór á og margar smærri þverár renna í hana, oft í stórum fossum og eru fossarnir í Banos frægir fyrir fegurð. Við fórum yfir gljúfrið á einum stað í kláf sem var svona eins og ofvaxið barnarúm með handrið sem ekki náði manni upp í mitti og svo var staðið í græjuni ekki setið. Maður er alltaf að kynnast einhverju nýju hérna. Borðuðum frábæran hádegismat á veitingastað í dalnum, tókum okkur svo smá frítíma áður en lagt er af stað í átt að Chimborazo.
Seinni part dags ókum við svo sem leið lá í Chimborazo sýslu og tókum gistingu á gamalli lestarstöð sem hefur verið breytt í gistiheimili. Mjög sjarmerandi staður. Pínulítil, ung indiánakona sá um að elda og við tókum eftir því að hér er hinn hefðbundni fatnaður allt öðruvísi en hjá indjánakonunum í Otavalo.

21. og 22. Jan - Coto Paxi

Cotopaxi
Við lögðum af stað um hálf tíu og það tók okkur um klukkutíma að aka upp á bílastæðið á Cotopaxi sem er í 4.500m hæð. Þaðan gengum við svo upp í skálan sem er í 4.800m. Við vorum komin í skálan fyrir 12 og það sem eftir lifði dags slökuðum við á eftir bestu getu til að safna kröftum í gönguna sem var í vændum. Fjöldi ferðafólks kemur í skálan um helgar og þessi sunnudagur var ekki undantekning á því. Það er greinilega vinsæll bíltúr betri borgara í Quito að aka upp á bílastæðið og ganga svo í þunna loftinu upp í skála, taka myndir, labba 100m upp í viðbót og sjá snjó í fyrsta skipti á ævinni. Margir eru bísna móðir en ekki má gleyma að Quito er í 2.800m hæð þannig að þeir frá Quito eru betur aðlagaðir en þeir sem búa við sjávarmál.
Lítill indjána strákur ca 10 ára hafði fengið far með rútu upp á bílastæði og rogaðist með kassa af súkkulaði upp í skála til að selja. Dagný var fyrsti viðskiptavinurinn en hann var samt ekki ánægður með viðskiptin í lok dags þar sem hann sat á stól við borðið okkar, dauðþreittur og horfði á okkur spila yatsi.
Skálinn var líka fullur af öðrum ferðalöngum á leið á tindinn og Ekvadorskum leiðsögumönnum en miðað er við að taka 2 viðskiptavini á hvern kúnna á fjallinu. Við Dagný lentum í herbergi með 15 svissneskum ferðalöngum en einnig voru franskir, enskir, hollenskir og bandarískir fjallgöngumenn í skálanum.
Kl 5 borðuðum við kvöldmat og fórum svo að leggja okkur því að við áttum að vakna aftur á miðnætti til að leggja af stað á fjallið. Það gekk erfiðlega að sofna því mikill umgangur var í skálanum og þurftu um það bil allir herbergisfélagar okkar að fara út að pissa á mismunandi tímum þannig að það var nær stanslaus umgangur. Dagný náði ekkert að sofna en ég dottaði í ca einn og hálfan tíma. Korter í tólf fóru allir að klæða sig aftur og við fengum okkur morgunmat, þ.e. ég píndi í mig eina brauðsneið og te bolla.
Við vorum komin af stað fyrir kl eitt í stjörnubjörtu og fallegu veðri. Eftur hálftíma göngu komum við á jökul og settum á okkur brodda. Fljótlega byrjaði að kula úr vestri og svo blása, það dró yfir ský og fór að snjóa. Við byrjuðum að safna á okkur klaka á fötin, bakpokan, ísöxina og skíðastafina og brátt var komin sentimeters þykkt lag af ís utan á allt. Gangan var puð, ég var hissa á að leiðsögumennirnir skildu ekki snúa við eins vont og veðrið var en kannski var það bara vegna þess hve ég var ótrúlega andstuttur.
Leiðin er ekki mjög erfið, brattar snjóbrekkur mest í 30 til 45 gráðu halla en ísingin og hvassviðrið gerðu þetta helvíti erfitt þegar það bættist við það hvað maður er andstuttur í þessari hæð. Við stóðum á tindinum í 5.897m kl 6 og sáum nákvæmlega ekkert. Ég reyndi að taka myndir en linsan ísaðist stanslaust þannig að ég náði ekki mörgum. Svo var ekkert annað en að drífa sig niður aftur og það tók innan við tvo tíma niður í skála. Ég var ánægður með að hafa klárað mig í fjallgöngunni en dálítið svektur að hafa hrept eitt versta veður sem Fausto segir að hægt sé að lenda í þarna. Eins og fjallið hafði verið flott dagana á undan. Við hvíldum okkur í tvo tíma í skálanum og héldum svo af stað til Banos sem er lítil borg skammt frá fjallinu Chimborazo en meiningin er að ganga á það á fimmtudag.
Á leiðinni rákumst við á rútu með frönskum fjallgöngumönnum sem höfðu verið með okkur á fjallinu sem var föst í árfarvegi. Það var nefnilega þannig að snjókoman sem við vorum í á Cotopaxi var rigning þegar neðar dró og því fylgdu vatnavextir sem ollu skemmdum á vegslóðanum í Cotopaxi þjóðgarðinum. Frakkarnir losnuðu úr festuni og við fylgdum á eftir en stuttu seinna komum við að stað þar sem vegtenging við brú nokkra hafði skemmst. Rútubílstjórinn reyndi að keyra yfir við hliðina á brúnni og festi rútuna og fyllti upp í slóðan þannig að við urðum að snúa við og finna aðra leið út á þjóðveg en ekki fyrr en Fausto var búinn að reyna sitt til að bjarga málunum, ýta, moka og
gefa fyrirskipanir
.

Frá 20. Jan Einar í Ekvador - Coto Paxi sigrað!!!

Það ringdi aftur í gærkvöldi og veðrið var svalt og drungalegt þegar við lögðum af stað í morgun. Eftir um klukkutíma akstur komum við að aðalhliði Cotopaxi þjóðgarðsins og þaðan var um hálftíma akstur að mjög flottum skála þar sem gist verður í eina nótt. Cotopaxi var umvafin skýjum svo rétt sá í hann annað slagið en fjallið stendur á hásléttu sem er talsvert ólík því landslagi sem við höfum verið í fram að þessu. Hér eru ekki djúpir dalir og hæðir og fjöll, heldur til þess að gera flatt land með nokkrum stórum fjöllum. Eitt þeirra er Ruminjahui, gríðarlega fallegur hryggur með þremur tindum, rauðlitaður með gríðarlegum fjölda bergganga eða inskota. Við gengum á mið tindinn sem er 4.640 m og fengum sæmilegt skyggni uppi en ekki sól. Þetta var jafnframt síðasta aðlögunargangan því á morgun förum við upp í skála í hlíðum Cotopaxi og rétt eftir miðnætti aðra nótt munum við leggja íann ef allt gengur vel.
Þegar við komum niður aftur af Ruminjahui létti til og Cotopaxi sýndi sig í allri sinni dýrð. Leiðinn er nánast öll á jökli, krækt fyrir ísfall og stórar sprungur og svo annað ísfall (serakar).

Frá 19. Jan Einar í Ekvador - Á leið að Coto Paxi

Ræs kl 4 og haldið af stað kl 5 um morguninn því nú átti að ganga á Iliniza Norte 5.120m. Við þurftum að keyra í 30 mín og hófum svo gönguna í 3.900 m hæð, rétt fyrir dögun. Frábært veður og gott skyggni og útsýni stórkostlegt yfir á Cotopaxi næst hæsta fjall Ecvador. Gangan gekk vel og við vorum komin að skála í 4.700m um 8. Töluvert hafði snjóað í fjallið í rigningunni í gær og gerði það leiðina örlítið meira krefjandi en venjulega. Við vorum tvo tíma að brölta leið sem gæd bókinn gráðar 5.3 og sátum á toppnum rétt upp úr 10. Frábær leið og flott fjall með gríðarlegu útsýni. Við vorum komin aftur niður á Gistiheimili upp úr hádegi og slökkuðum síðan á. Þegar þetta er skrifað er Dagný að horfa á hræðilega sjóræningjaútgáfu af King Kong (á spænsku) ásamt nokkrum heimamönnum.

Frá 18. Jan Einar í Ekvador - Ganga á La Pichincha 4.700m


Dagurinn byrjaði með göngu á 4.700m hátt eldfjall sem heitir La Pichincha og gnæfir yfir Quito. Við byrjuðum gönguna í 3.700 m og þrátt fyrir að við séum vel byrjuð að aðlagast þá finnur maður vel fyrir því í þessari hæð að gangan sækist hægar en við sjávarmál. Fjallið var sveipað skýjum sem drógust öðru hvoru nægilega frá til þess að við gætum séð niður í Quito 2000m neðar sem og fjöllin í kring. Hins vegar var 700 m djúpur gígur fjallsins hulinn skýjum allan tímann.
Við vorum komin aftur til Quito upp úr hádegi og eftir stutt stopp tókum við okkar hafurtask og ókum í suður. Það fór fljótlega að rigna eins og hellt væri úr fötu en Fausto var hin rólegasti og sagði að það myndi ekki endast lengi og það stóðst því eftir 3 tíma hafði stytt upp. Við komum okkur fyrir á Gistiheimili hjá fjölskyldu nokkuri skammt frá Iliniza Norte og Iliniza Sur sem er tvö rúmlega 5000 m há fjöll og talsvert klifin.

22. Jan - Sérferð á Snæfellsjökul

Fyrr í mánuðinum fór ég með par frá Skotlandi á Snæfellsjökul. Mikið hafði snjóað deginum áður og ennþá meira skafið í leiðina sem við fórum! Þar af leiðandi gátum við keyrt afar stutt upp fjallið á jepplingnum okkar og komumst ekki einu sinni að Sönghelli!!!
Það er óhætt að segja að maður hafi fengið að vinna jólasteikina af sér því troða varð snjó alla leið upp á topp (ca. 20sm djúp spor að meðaltali...oft meira, stundum minna).

Við fengum á okkur dýrindis veður og tók ferðin 4:30 klst upp á topp frá ca 200m hæð...nokkuð gott að vetri til án skíða í nýföllnum snjó! Svo 2 klst niður í bíl.
Friðjón Þórleifsson

22. Jan. Fréttir - Ísklifur II


Núna um helgi héldu ÍFLM, í samvinnu með Ísalp, framhaldsnámskeið í ísklifri og voru 7 mættir til leiks ásamt leiðbeinendum frá ÍFLM, þeim Ívari F. Finnbogasyni og Friðjóni Þórleifssyni.


Farið var inní kjaftinn á Glymsgilinu og dvalið þar við klifuræfingar og fleira. Þar var farið ítarlega yfir megintryggingarnar, V-þræðinga og útskýrt hvernig og hvenær á að tvöfalda þá eða jafnvel þrefalda. Einnig var farið yfir sigtækni, notkun einstefnulása í akkeri ásamt fleiri atriðum. Seinni hluti dagsins var síðan notaður til að klifra í ofanvað og voru þá valdar erfiðari leiðir og ískerti og má þess geta að þá stigu nokkrir þátttakendur það skref að leiða sína fyrstu leið. Að mati kennaranna heppnaðist dagurinn frábærlega og var klifrað fram í myrkur.
Hér er slóði á nokkrar myndir frá Guðmundi sem var þátttakandi;

17. Jan. Einar í Ekvador - Hvíldardagur og önnur afþreyingÍ dag var hvíldardagur sem fólst í því að prófa sem flestar frumlegar samgönguaðferðir og mögulegt er á sem stystum tíma. Við byrjuðum daginn á hefðbundinn máta og tókum rútu niður í Ibarra. Planið var að fara með því sem Fausto kallar Autoferro og er einhverskonar lest fyrir túrhesta. Til að hitta á lestina fengum við far með annarskonar túrista flutnings apparati, sem sé á vörubílspalli sem búið er að byggja yfir og setja í bekki. Eftir um klukkustundar akstur var allt í einu beygt útaf og ekið eftir lestarteinum (frekar grófur vegur fyrir bíl) þar til komið var að djúpu gili þar sem húsaþyrping sem líktist gistingu fyrir ferðamenn var staðsett á hinum bakkanum. Til að komast yfir til að fá okkur hressingu, tókum við svifbraut sem við vorum hengd í á einhverskonar rólu. Engar læstar karabínur eða annar öryggisóþarfi var notaður heldur var maður bara hengdur í opin krók og síðan á fleygiferð ca 300 m. Allt gekk þetta vel og til að komast til baka var notaður kláfur úr steipustyrktarjárni. Ekki tók betra við, lestin eða “autoferro” var semsagt nokkurskonar frambyggður rússajeppi á sterum, a.m.k. 40 ára gamall og gekk eftir þessum líka “þráðbeinu” teinum sem mér fannst með ólíkindum að þessu frumlega eimreið gæti hangið á. Og viti menn eftir hálftíma hoss og velting kom búmm og vagnin af teinunum. Þá tóku mínir menn fram vígalegan tjakk og tjökkuðu vagnin upp á teinana aftur, vanir menn. Greinilega daglegt brauð á þeim bænum. Eftir þessi ævintýri var ekið til Quito því nú á að halda til suðurs að hærri fjöllum.

16. Jan. Einar í Ekvador - Hæðaraðlögunin farin að skila sér
Í dag gengum við á fjallið Imbabura sem er 4600 m hátt fjall sem gnæfir yfir La Esperanza. Við tókum lókal “leigubíl” sem er pallbíll og ókum upp veg sem nær í 3.300m hæð og gengum þaðan á fjallið. Í förina slógust þýskur strákur og kanadísk stúlka sem líka ætluðu að ganga á Imbabura. Gangan byrjar á allbröttum grasbrekkum upp í 4.200 m en síðan tekur við hryggur með smá brölti hér og þar upp í 4.600 m. Útsýnið var heldur lítið því fjallið var sveipað skýjum og fyrr en varði var veðrið farið að minna á Ísland, vindgjóla með regnúða og ekkert annað en að fara í peysu og stakk og setja upp húfur og vetlinga. Okkur gekk vel og vorum 3 tíma upp og greinilegt að maður er byrjaður að aðlagast þunna loftinu eitthvað aðeins. Dagný virðist reyndar aðlagast hraðar en ég og blæs varla úr nös þegar ég geng upp og niður af mæði. Fausto var hinn ánægðasti með hraðan, hafði aldrei farið jafn hratt upp með viðskiptavini.
Á leiðinni niður svifti af fjallinu og þegar við stoppuðum til að fá okkur hádegismat sáum við vel hvar við höfðum verið rétt áður. Fórum í bæjarferð seinnipartinn til Ibarra sem er 100.000 manna borg hér niðri í dalnum fyrir neðan La Esperanza. Fórum á markað og reyndum að finna póstkort en þau fundust hvergi, ég hefði hinsvegar getað skellt mér í klippingu fyrir tvo dollara. Dagný keypti sér ís í brauðformi á 25 cent og ég fékk mér hálfan lítra af gosi á 45 cent. Það verður seint sagt að það sé dýrt hérna.

15. Jan. Einar í Ekvador - Gringóar og GrýlurTókum “strætó” eldsnemma upp í þorp hér fyrir ofan La Esperanza. Eins og í gær var þetta eldgamall skrjóður sem stritaði upp brattan og hlykkjóttan fjallveginn með svartan reykjarmökk aftan úr sér. Við hoppuðum úr í 3000 m hæð við stíg sem liggur upp á “lítið” 3.800m fjall sem Fausto leiðsögumaður hafði valið sem næsta aðlögunartind okkar. Gangan gekk vel, vorum tvo tíma upp sem er talsvert betri hraði en á Fuya Fuya í gær. Gengum svo niður í gegnum ræktarland heimamanna. Indánarnir eru kurteisir og elskulegir en vilja síður láta taka af sér mynd. Við komumst líka að því þeir fullorðnu nota “gringo”ana fyrir grýlur; ef þú borðar ekki matinn þinn þá læt ég næsta “gringo” sem kemur til þorpsins, taka þig. Við Dagný erum úrvals eintök af “gringós”, því þó að þetta sé eiginlega hálfgert skammaryrði um Bandaríkjamenn þá fá allir hávaxnir fölir bleiknefjar viðurnefnið líka. Og talandi um að vera hávaxinn, ég sem er 1,80 á hæð fíla mig eins og risa þegar ég tek strætó hérna og sest á meðal heimamanna. Í fyrsta sinn sé ég eitthvað vit í lýsingu Austurríkismannsins sem um árið kallaði mig “giant of a man”. Hann ruglaðist reyndar á mér og Leifi frænda sem er 1,93 á hæð en það er nú önnur saga.

14. Jan. Einar í Ekvador - 4.000m múrinn rofinn
14. jan. Urðum ekki fyrir vonbrigðum með tónlistina í gær, fórum á bar með lifandi tónlist, Andestónlistin er mjög lifandi og skemmtileg.
Vöknuðum svo í birtingu eins og í gær og eftir staðgóðan morgunverð tókum við leigubíl upp að stöðuvatni í 3700m hæð. Þaðan gengum við á báða tinda Fuya Fuya fjallsins 4260 og 4245. Átti að vera frekar létt labb en ég stóð á öndinni og fann hressilega fyrir þunna loftinu. Þetta var samt hin skemmtilegasta ganga og þar að auki smá brölt upp kletta til að fara á hærri tindinn. Við vorum komin aftur til Otavalo um eitt leitið, fengum okkur að borða og tókum svo rútu til Ibarra og þaðan áfram til La Esperanza. La Esperansa er lítið þorp þar sem meirihluti íbúanna eru indánar. Rútan sem við tókum frá Ibarra var heldur kominn til ára sinna, innréttuð eins og strætó og gerði greinilega ekki ráð fyrir að nokkur væri yfir einn og sjötíu hvað þá að til væri fólk með jafnlanga lærleggi og ég og Dagný. Vegurinn til La Esperanza var líka ansi grófur og ójafn, mér fanst rútan aka næstum jafn mikið á öfugum vegarhelmingi og þeim rétta enda bílstjórinn á fullu að sneiða fram hjá verstu köflunum á veginum. Við komum okkur fyrir á gistiheimili sem heitir Casa Aida og er mjög sjarmerandi með útsýni til fjalla allt í kring.

13.Jan. Einar í Ekvador - Spennandi akstur og byrjun á hæðaraðlögun


13 jan. Við tókum daginn snemma og fórum á húsdýramarkað heimamanna og síðan á handverksmarkað. Hér er markaður á Laugardögum og þykir markaðurinn í Otavalo einn sá besti í Andesfjöllum eða svo segir “Gædbókin”. Eftir að hafa eytt morgninum á markaðnum og fjárfest í allskonar “ómissandi” framleiðslu heimamanna fórum við í göngu umhverfis stöðuvatnið Cuicocha sem er í eldfjallagíg sem síðast var virkur fyrir 2000 árum. Okkur var ekið á vörubíl að Cuicocha og eins hér virðist siður var ekið greitt. Nema hvað að bílstjórinn ekur utan í belju sem hljóp út á veginn. Ég átti von á svona splatter slysi en belju skrattinn stóð upp og gekk í burtu.
Well, gangan var skemmtileg og náttúran falleg, við gengum hæst í 3.500m og vorum ekkert rosalega móð sem vonandi lofar góðu með áframhaldandi hæðaraðlögun. Í kvöld er svo meiningin að fara út að borða og svo á tónleika með einhverri lócal indánahljómsveit.

12. Jan. Einar í Ekvador - Íslensku Risarnir

12 jan framhald. Leiðsögumaðurinn Fausto tók á móti okkur í Quito og fór með okkur á hótel þar sem við skildum eftir háfjallagræjurnar sem ekki munu nýtast okkur fyrstu vikuna í ferðinni. Skömmu seinna vorum við Dagný og Fausto lögð af stað til Otavalo sem er 110 km norðan Quito. Þangað er tveggja tíma ferð með áætlunarbíl þrátt fyrir að rútunni hafi beinlínis verið ekið í loftköstum allstaðar þar sem því var við komið. 90% íbúa Otavalo eru indánar, en það kom mér á óvart hversu smávaxnir þeir eru, konurnar 130 til 150 cm og karlarnir upp í 165. Ég og Dagný bókstaflega gnæfum upp úr.

12. Jan. Einar í Ekvador - Flugið til Suður Ameríku

12.jan 10.00. Flugið til NY var tíðindalaust, biðröðin í vegabréfaskoðun tók bara 25 mín og síðan 10 tíma bið fyrir flug til Quito með millilendingu í Panama. Flugfélagið heitir Copa og starfsmenn byrjuðu á að spyrja hvora töskuna mína ég vildi að fengi forgang. Þeir sögðu að ef mikið kæmi af farangri yrði hin taskan mín eftir og kæmi kannski á morgun. Það verður spennandi að sjá hvaða farangur skilar sér í Quito. Þegar þetta er skrifað erum við nýlent í Panama. Panama er sæmilega ríkt á Mið-Ameríku mælikvarða og þar er greinilega mikið byggt þessa dagana, sást víða í byggingarkrana þegar við flugum yfir borgina. Við sáum líka skurðinn fræga sem er lykillinn að tekjum heimamanna.

11 Jan. Einar Torfi og Dagný í Ekvador - Á Eldfjallaslóðir Ekvador


Fimmtudaginn 11.jan lagði Einar Torfi Finnsson leiðsögumaður og markaðsstjóri ÍFLM, í ferð á hæstu fjöll Ecuador ásamt ferðafélaga sínum Dagnýu Indriðadóttur. Þau lentu í Quito þann 12.
Meiningin er að hita upp með nokkrum tindum milli 4000 og 5000 m og ganga svo á Cotopaxi (5.897) og Chimborazo (6.310 m sumir segja 6.267m). Ætlunin er fyrst að fara og ganga á Imbambura (4.609m), síðan Ruminiahui (4.712 m) og þar á eftir Iliniza Norte (5.126 m), síðan aðalfjöllinn tvö. Allt eru þetta eldfjöll sem standa upp úr Andes hásléttuni. Cotopaxi þykir formfegurst, dálítið eins og ofvaxinn Snæfellsjökull eða Fuji en Chimborazo hefur það að vera sá punktur jarðar sem er fjærst miðju hennar.