15. Jan. Einar í Ekvador - Gringóar og Grýlur







Tókum “strætó” eldsnemma upp í þorp hér fyrir ofan La Esperanza. Eins og í gær var þetta eldgamall skrjóður sem stritaði upp brattan og hlykkjóttan fjallveginn með svartan reykjarmökk aftan úr sér. Við hoppuðum úr í 3000 m hæð við stíg sem liggur upp á “lítið” 3.800m fjall sem Fausto leiðsögumaður hafði valið sem næsta aðlögunartind okkar. Gangan gekk vel, vorum tvo tíma upp sem er talsvert betri hraði en á Fuya Fuya í gær. Gengum svo niður í gegnum ræktarland heimamanna. Indánarnir eru kurteisir og elskulegir en vilja síður láta taka af sér mynd. Við komumst líka að því þeir fullorðnu nota “gringo”ana fyrir grýlur; ef þú borðar ekki matinn þinn þá læt ég næsta “gringo” sem kemur til þorpsins, taka þig. Við Dagný erum úrvals eintök af “gringós”, því þó að þetta sé eiginlega hálfgert skammaryrði um Bandaríkjamenn þá fá allir hávaxnir fölir bleiknefjar viðurnefnið líka. Og talandi um að vera hávaxinn, ég sem er 1,80 á hæð fíla mig eins og risa þegar ég tek strætó hérna og sest á meðal heimamanna. Í fyrsta sinn sé ég eitthvað vit í lýsingu Austurríkismannsins sem um árið kallaði mig “giant of a man”. Hann ruglaðist reyndar á mér og Leifi frænda sem er 1,93 á hæð en það er nú önnur saga.

No comments: