21. og 22. Jan - Coto Paxi

Cotopaxi
Við lögðum af stað um hálf tíu og það tók okkur um klukkutíma að aka upp á bílastæðið á Cotopaxi sem er í 4.500m hæð. Þaðan gengum við svo upp í skálan sem er í 4.800m. Við vorum komin í skálan fyrir 12 og það sem eftir lifði dags slökuðum við á eftir bestu getu til að safna kröftum í gönguna sem var í vændum. Fjöldi ferðafólks kemur í skálan um helgar og þessi sunnudagur var ekki undantekning á því. Það er greinilega vinsæll bíltúr betri borgara í Quito að aka upp á bílastæðið og ganga svo í þunna loftinu upp í skála, taka myndir, labba 100m upp í viðbót og sjá snjó í fyrsta skipti á ævinni. Margir eru bísna móðir en ekki má gleyma að Quito er í 2.800m hæð þannig að þeir frá Quito eru betur aðlagaðir en þeir sem búa við sjávarmál.
Lítill indjána strákur ca 10 ára hafði fengið far með rútu upp á bílastæði og rogaðist með kassa af súkkulaði upp í skála til að selja. Dagný var fyrsti viðskiptavinurinn en hann var samt ekki ánægður með viðskiptin í lok dags þar sem hann sat á stól við borðið okkar, dauðþreittur og horfði á okkur spila yatsi.
Skálinn var líka fullur af öðrum ferðalöngum á leið á tindinn og Ekvadorskum leiðsögumönnum en miðað er við að taka 2 viðskiptavini á hvern kúnna á fjallinu. Við Dagný lentum í herbergi með 15 svissneskum ferðalöngum en einnig voru franskir, enskir, hollenskir og bandarískir fjallgöngumenn í skálanum.
Kl 5 borðuðum við kvöldmat og fórum svo að leggja okkur því að við áttum að vakna aftur á miðnætti til að leggja af stað á fjallið. Það gekk erfiðlega að sofna því mikill umgangur var í skálanum og þurftu um það bil allir herbergisfélagar okkar að fara út að pissa á mismunandi tímum þannig að það var nær stanslaus umgangur. Dagný náði ekkert að sofna en ég dottaði í ca einn og hálfan tíma. Korter í tólf fóru allir að klæða sig aftur og við fengum okkur morgunmat, þ.e. ég píndi í mig eina brauðsneið og te bolla.
Við vorum komin af stað fyrir kl eitt í stjörnubjörtu og fallegu veðri. Eftur hálftíma göngu komum við á jökul og settum á okkur brodda. Fljótlega byrjaði að kula úr vestri og svo blása, það dró yfir ský og fór að snjóa. Við byrjuðum að safna á okkur klaka á fötin, bakpokan, ísöxina og skíðastafina og brátt var komin sentimeters þykkt lag af ís utan á allt. Gangan var puð, ég var hissa á að leiðsögumennirnir skildu ekki snúa við eins vont og veðrið var en kannski var það bara vegna þess hve ég var ótrúlega andstuttur.
Leiðin er ekki mjög erfið, brattar snjóbrekkur mest í 30 til 45 gráðu halla en ísingin og hvassviðrið gerðu þetta helvíti erfitt þegar það bættist við það hvað maður er andstuttur í þessari hæð. Við stóðum á tindinum í 5.897m kl 6 og sáum nákvæmlega ekkert. Ég reyndi að taka myndir en linsan ísaðist stanslaust þannig að ég náði ekki mörgum. Svo var ekkert annað en að drífa sig niður aftur og það tók innan við tvo tíma niður í skála. Ég var ánægður með að hafa klárað mig í fjallgöngunni en dálítið svektur að hafa hrept eitt versta veður sem Fausto segir að hægt sé að lenda í þarna. Eins og fjallið hafði verið flott dagana á undan. Við hvíldum okkur í tvo tíma í skálanum og héldum svo af stað til Banos sem er lítil borg skammt frá fjallinu Chimborazo en meiningin er að ganga á það á fimmtudag.
Á leiðinni rákumst við á rútu með frönskum fjallgöngumönnum sem höfðu verið með okkur á fjallinu sem var föst í árfarvegi. Það var nefnilega þannig að snjókoman sem við vorum í á Cotopaxi var rigning þegar neðar dró og því fylgdu vatnavextir sem ollu skemmdum á vegslóðanum í Cotopaxi þjóðgarðinum. Frakkarnir losnuðu úr festuni og við fylgdum á eftir en stuttu seinna komum við að stað þar sem vegtenging við brú nokkra hafði skemmst. Rútubílstjórinn reyndi að keyra yfir við hliðina á brúnni og festi rútuna og fyllti upp í slóðan þannig að við urðum að snúa við og finna aðra leið út á þjóðveg en ekki fyrr en Fausto var búinn að reyna sitt til að bjarga málunum, ýta, moka og
gefa fyrirskipanir
.

3 comments:

Freon said...

Flott fjöll! hvernig gengur nú á Chimborazo???

Er markaður fyrir 44" trukka á vegakerfi Ekvador?

Unknown said...
This comment has been removed by the author.
Unknown said...

Gott hjá ykkur, lítur út fyrir að vera mjög flott landslag og skemmtileg ferð.

Bestu kveðjur frá Kanada
Einar Ísfeld