25. jan. Einar í Ekvador - Chimborazo hefur betur.






Vöknuðum reyndar kl ellefu, klukkutíma fyrir miðnætti, svolítið skrýtinn tími til að segja góðan daginn við samferðafólkið. Fengum okkur te og brauðsneið og vorum komin af stað 6 mínútur yfir miðnætti. Veðrið var hálf ógeðslegt og var búið að valda mér léttum áhyggum fyrr um kvöldið, þoka og rigning. En eftir innan við klukkutíma göngu gengum við upp úr skýjunum og sáum stjörnubjartan himinn í fallegu veðri. Við spentum á okkur broddana í um 5.300m hæð og klöngruðumst upp skriður og kletta sem voru á köflum óþægilega snjólítil miðað við hæðina. Í ca 5500 m hæð þurftum við að brölta upp 55° brattan klett klæddan þunnri ísskán, aðstæður sem maður hefur svo sem oft séð heima en ekki þurft að brölta yfir svona ansi andstuttur. Okkur miðaði vel og tókum hægt og rólega framúr öllum hópunum sem voru á leiðinni upp (ca 20 manns voru að reyna við fjallið þessa nótt), og greinilegt að gamla formið var að virka. Þegar komið var í um 5.800 m hæð þarf að þvera sig yfir á hrygg yfir á gömlu normal leiðinna á fjallið en við vorum vestar á leið sem flestir telja betir núna. Þegar við vorum komin vel af stað út í hlíðina fer Fausto að pota í snjóinn með ísöxinni og ég átta mig á því að við stöndum á vindfleka í 35 til 45° bratta og smá skafrenningur bætti snjó stöðugt í brekkuna þar sem við stóðum. Sem sagt hugsanleg snjóflóðahætta. Okkur Dagnýu leist ekki meira en svo á blikuna og þegar við vorum komin út á hryggin hjá normal leiðinni voru aðstæður enn verri þar fyrir ofan. Það var ekki nema um eitt að ræða, snúa við og það gerðum við í rúmlega 5.900 m. Við gengum niður bratta hryggi á normalleiðinni, 35 til 45 gráðu brattir og svo beygðum við út í risa stóra skál með hangandi jökli og sikk sökkuðum niður hana alveg niður að skála. Það voru auðvitað vonbrigði að komast ekki upp en aðalega var maður samt dauðfeginn að komast út úr snjóflóða aðstæðunum. Aðeins einn hópur hélt áfram upp og sneri við í 6000m en enginn fór á tindinn. Svissneskur leiðsögumaður sem var að fara upp í annað sinn í mánuðinum og hefur farið á Chimbo mörgum sinnum sagði að hann hefði sjaldan lent í jafn leiðinlegum aðstæðum.
Þegar við komum aftur í Whymper skálan þá lagði ég mig í tvo tíma og svo gengum við niður að bíl og ókum norður fyrir fjallið og svo til baka til Banos.

1 comment:

Freon said...

Aðalmarkmiðið er auðvitað að koma heill heim! Hljómar eins og flott ferð á flott fjöll!
Hvað er næst?